154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[11:06]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin skilar auðu í baráttunni við verðbólguna. Ríkisstjórnin skilar auðu í baráttunni við verðbólguna enn eina ferðina. Nú ræðum við frumvarp til fjárlaga fyrir komandi ár. Þriðja fjárlagafrumvarp hæstv. fjármálaráðherra á kjörtímabilinu. Fjármálaráðherra fer fögrum orðum um sterka stöðu og stöðugt streymi fjármagns inn í ríkissjóð. En hvaða stefnumótun er boðuð með þessu frumvarpi? Ég spurði um það við kynningu fjárlagafrumvarpsins hvernig ríkisfjármálunum yrði beitt í baráttunni við verðbólguna og svarið sem ég fékk var að sú aukning sem hefur orðið í tekjum ríkissjóðs yrði ekki grundvöllur að nýjum útgjöldum. Þetta kom einnig fram í viðtali við hæstv. fjármálaráðherra í fjölmiðlum. Er það allt og sumt? Þetta svar minnir á mann sem horfir á hús sitt brenna á báli og þegar við spyrjum hvað hann ætli að gera til að reyna að slökkva eldinn svarar hann: Ég ætla ekki að skvetta bensíni á eldinn. Fjármálaráðherra ætlar ekki að auka ríkisútgjöld á miklum verðbólgutímum þrátt fyrir meira fé í ríkiskassanum. Hæstv. fjármálaráðherra ætlar ekki að dæla meira fé út í samfélagið á verðbólgutímum, ekki að auka eftirspurnina. Hæstv. fjármálaráðherra ætlar ekki að skvetta meira bensíni á verðbólgubálið. Það er öll sú barátta sem fjármálaráðherra býður upp á í baráttunni við verðbólguna. Hann ætlar sem sagt ekki að gera illt verra en ekkert meira en það. Seðlabankinn stendur einn í baráttunni gegn verðbólgunni þrátt fyrir ítrekaðar hjálparbeiðnir úr Svörtuloftum. Munurinn á peningamálastefnu Seðlabankans og ríkisfjármálunum í baráttunni gegn verðbólgunni er sá að áhrifin af hinu fyrrnefnda, peningamálastefnu Seðlabankans, koma fram allt að 16 mánuðum síðar en áhrifin af beitingu ríkisfjármála gegn verðbólgunni, sem koma strax fram. Það er tímamismunur hér á ferðinni. Það hefði verið hægt að keyra niður verðbólguna með ríkisfjármálum strax en við þurfum að bíða í 16 mánuði eftir að áhrif stýrivaxta komi fram.

Niðurstaðan af þessu aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar, fjármálaráðherra, í því að beita ekki ríkisfjármálunum gegn verðbólgunni eru hæstu stýrivextir Seðlabankans sem þekkjast í hinum vestræna heimi eða 9,25%. Ég veit um eitt land í Evrópu sem er með hærri stýrivexti og það er Rússland, með rúmlega 12%. Á sama tíma eru stýrivextir í Noregi 4,25%, meira en helmingi lægri en á Íslandi. Það eru lántakendur húsnæðislána, íslenska millistéttin, þeir verst settu í samfélaginu sem bera kostnaðinn af verðbólgunni, þökk sé aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar og hæstv. fjármálaráðherra.

Við í Flokki fólksins höfum ítrekað kallað eftir því að þjóðin fái sanngjarnt endurgjald fyrir afnot af sjávarauðlindinni og að viðskiptabankarnir greiði þó ekki nema brot af sínum hagnaði í okkar sameiginlega sjóð, bankaskattinn. Ríkisstjórnin hefur ekki tekið vel í þær hugmyndir. Þvert á móti lækkaði ríkisstjórnin bankaskattinn í miðju Covid og vill helst ekki að á hann sé minnst, nema þá þegar ráðherrar Framsóknarflokksins eru á atkvæðamiðum og lofa upp í ermina á sér.

Ferðaþjónustan er á fleygiferð og ríkisstjórnin ætlar ekkert að aðhafast meira en svo að leggja að nýju á 300 kr. gistináttagjald sem hún felldi sjálf niður árið 2021. Hvernig væri nú að ráðast í raunverulegar aðgerðir til að slá á þenslu og draga úr verðbólgu? Það virðist lítill áhugi á því á ríkisstjórnarheimilinu, sennilega af því að þá þyrftu ríkisstjórnarflokkarnir að koma sér saman um eitthvað annað en að halda áfram í ráðherrastólana. Stefnuleysi núverandi ríkisstjórnar í baráttunni gegn verðbólgunni er samfélaginu dýr. Sama má segja um aðra málaflokka, líkt og algert stefnuleysi í málefnum hælisleitenda, málefnum alþjóðlegrar verndar. Hæstv. fjármálaráðherra gekk svo langt að lýsa því yfir fyrir skömmu að það væri ekki hlutverk ríkisfjármálanna að halda aftur af verðbólgunni. Það væri einungis hlutverk Seðlabankans samkvæmt lögum. Það ætti bara að ganga þar á eftir. Talandi um að skila auðu í baráttunni gegn verðbólgunni.

Öryrkjar og ellilífeyrisþegar þurfa áfram að bíða eftir réttlætinu. Hæstv. forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir sagði árið 2017, með leyfi forseta: „Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlæti.“ Hæstv. forsætisráðherra sagði einnig við sama tækifæri: „Þegar þetta fátæka fólk er beðið um að bíða eftir réttlætinu er verið að neita því um réttlæti.“ — þegar þetta fólk er beðið um að bíða eftir réttlætinu er verið að neita því um réttlæti.

Persónuafsláttur og skattþrepamörk munu hækka um næstu áramót um 8,5%. Þessi hækkun skilar sér upp allan tekjustigann. Hlutfallið er áhugavert en samkvæmt greinargerð fjárlagafrumvarpsins þurfa skattþrepamörk að hækka um 8,5% til að verja kaupmátt. Á sama tíma á aðeins að leiðrétta lífeyri almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga um 4,9%. Munurinn er sem sagt 8,5% á móti 4,9%. Ef við þurfum að hækka hátekjuskattsþrepið um 8,5% til að vernda kaupmátt, af hverju hækkum við ekki lífeyri almannatrygginga um sömu prósentu, 8,5%? Það er ekki gert. 4,9% er látið nægja. Hæstv. fjármálaráðherra hefur gert það að einkennismerki sínu að miða við allar aðrar prósentur þegar kemur að lífeyri almannatrygginga heldur en lagðar eru til grundvallar alls staðar annars staðar í fjárlögunum. Launa- og verðlagsforsendur frumvarpsins eru sagðar eftirfarandi: Spáð er 8,7% verðbólgu frá ársbyrjun 2023 til ársloka — 8,7% verðbólgu til ársloka í ár. Spáð er að verðbólgan muni mælast 7,4% í desemberlok. Skattþrepamörk persónuafsláttar hækka um 8,5%. Vegin meðalhækkun launa ríkisstarfsmanna á yfirstandandi ári er 7,3%. Laun á almennum vinnumarkaði hækkuðu um 6,75% samkvæmt kjarasamningum, þó ekki minna en 35.000 kr. Á sama tíma á lífeyrir almannatrygginga aðeins að hækka um 4,9%. Í 62. gr. laga um almannatryggingar, áður 69. gr., segir að fjárhæðir almannatrygginga skuli breytast árlega og að ákvörðun þeirra skuli taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag.

Ef greinin er túlkuð samkvæmt orðanna hljóðan ætti eðlilega að leggja til grundvallar launa- og verðlagsþróun í samfélaginu frá samþykkt síðasta fjárlagafrumvarps fram til áramóta og hækka fjárhæðir almannatrygginga í samsvarandi hlutfalli. Það er ekki gert í þessu fjárlagafrumvarpi. Ef laun hækka umfram verðlag þá ætti að miða við launavísitölu en ef verðlag hækkar umfram launaþróun eru vísitala neysluverðs lögð til grundvallar. Það á að velja það sem hærra er. En fjármálaráðherra lunkinn. Hann leggur til grundvallar spá um hvernig verðlag muni þróast á næsta ári í stað þess að horfa á launa- og verðlagsþróun á yfirstandandi ári. Það þarf varla að ítreka að slíkar spár, þegar þeim skeikar, vanmeta iðulega verðbólgu komandi árs. Svona eykst kjaragliðnun lífeyrisþega ár eftir ár. Þetta er svívirðilegt og samræmist engan veginn því verklagi sem 62. gr. laga um almannatryggingar boðar. Ég vek athygli á því að þetta er eina tilvikið í öllum 400 blaðsíðna fjárlagabálknum þar sem miðað er við spá um verðlag frá ársbyrjun til ársloka næsta árs. Eina tilvikið þar sem horft til þess að spá fyrir næsta ár er 4,9% verðbólga í stað þess að uppfæra fjárhæðir til samræmis við verðlag frá samþykkt síðustu fjárlaga, sem er að sjálfsögðu hin eðlilega leiðrétting. Það er að sjálfsögðu aldrei litið til launaþróunar við uppfærslu almannatrygginga enda þykir ráðherrum Sjálfstæðisflokksins alveg ómögulegt að viðhalda kaupmætti þeirra sem minnst hafa á milli handanna. Það er með ólíkindum að ríkisstjórnin ætli að taka eldri borgara og öryrkja út fyrir sviga og skerða kaupmátt þeirra eina ferðina enn. Eru þetta breiðu bökin? Öryrkjar og ellilífeyrisþegar bíða enn.

Heilbrigðisþjónustan glímir við fjölmörg vandamál en af lestri þessa fjárlagafrumvarps mætti halda að hér væri allt í himnalagi og af kynningu hæstv. fjármálaráðherra á fjárlögunum mátti helst ráða að það hefði aldrei staðið betur. Vert er að minna á að þegar fyrstu skóflustungur voru teknar vegna nýja Landspítalans árið 2018 gerðu menn ráð fyrir að hann yrði tekinn í notkun á næsta ári. Nú liggur fyrir að svo verður ekki, samkvæmt fjármálaáætlun er stefnt að því að taka hann í notkun fyrir lok ársins 2028. Vonum að svo verði. Það er svo allt annað mál hvort nýi Landspítalinn mun duga til að anna þeim verkefnum sem við stöndum frammi fyrir. Ríkisstjórnin hreykir sér af því að hafa náð samningum við sérgreinalækna aðeins fjórum árum eftir að samningaviðræður hófust. Vert er að hafa í huga að hið langvarandi samningsleysi milli ríkis og lækna olli stóraukinni kostnaðarþátttöku sjúklinga sem margir hverjir hafa aðeins lífeyri almannatrygginga til framfærslu og máttu alls ekki við þessum auknu útgjöldum.

Það er athyglisvert að sjá að framlög til uppbyggingar hjúkrunarheimila mun lækka um 5,1 milljarð kr., að því er virðist vegna þess að framkvæmdum er frestað. Nú síðast í morgun var rætt við forstjóra Sóltúns sem segir afar brýnt að fjölga hjúkrunarrýmum. Þörf sé á 700 nýjum hjúkrunarrýmum bara á höfuðborgarsvæðinu á næstu 15 árum — 700 nýjum hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu á næstu 15 árum. Þessi ríkisstjórn hefur boðað átak í uppbyggingu hjúkrunarrýma árum saman en verkefnum er svo nær undantekningarlaust slegið á frest og þau fáu nýju rými sem er tekin í notkun á ári hverju halda ekki í við öldrun þjóðarinnar. Öldruðum yfir áttrætt mun á næstu 15 árum fjölga um 85%. Ríkisstjórnin hefur ekki sett fram raunhæf markmið til að takast á við öldrun þjóðarinnar, sem þó var löngu fyrirséð, og virðist ætla að stóla á það að eldra fólk haldi heilsunni fram til 100 ára aldurs. Það mun að sjálfsögðu ekki verða.

Samkvæmt umfjöllun um húsnæðismál í frumvarpi þessu er fjárheimild málaflokksins aukin um 5.700 millj. kr., 5,7 milljarða, vegna aukinna stofnframlaga til að auka uppbyggingu íbúða innan almenna íbúðakerfisins. Vert er að taka fram að fyrir tveimur árum lagði Flokkur fólksins til ásamt öðrum flokkum í stjórnarandstöðu aukningu stofnframlagsins en ríkisstjórnarflokkarnir vildu þá ekki auka stofnframlag ríkisins vegna almennra íbúða og tryggja heildarstofnframlög að andvirði 7 milljarða kr. Það er gott að vita loksins að vilji ríkisstjórnarinnar er að fara að tillögum okkar en jafnframt miður hve svifasein stjórnvöld hafa verið í að bregðast við skorti á uppbyggingu íbúða. Það virðist vera að það taki 12 mánuði eða tvö ár að fara að tillögu Flokks fólksins. Sama var með tvöföldun frítekjumarksins, það tók 12 mánuði. Hérna erum við að tala um tvö ár. Ríkisstjórnin greiddi atkvæði gegn tillögu Flokks fólksins um leigubremsu síðasta vetur og ekki er útlit fyrir að grípa eigi til frekari aðgerða til að vernda leigjendur gegn því ástandi sem hefur skapast á leigumarkaði. Jú, samkvæmt þingmálaskrá á að leggja fram leggja fram frumvarp um úrbætur á leigulóðum í húsaleigulögum en ég á erfitt með að trúa því að þar verði kynntar raunverulegar lausnir.

Það er annað atriði sem ég tel mikilvægt að við stöldrum við og það er að undir stjórn Sjálfstæðisflokksins hefur nánast frá hruni verið að leiguliðavæða íslenskt samfélag. Ég hélt að sá flokkur stæði fyrir séreignarstefnu, að einstaklingar í þessu landi ættu að eiga sitt eigið húsnæði. Svo er ekki lengur. Núna á að beina fólki í leiguhúsnæði en ekki sjá til þess að fólk geti eignast eigið húsnæði. Það myndi skapa stöðugleika og yrði mesta eignamyndun sem til væri. Fasteignir í landinu eru stærsta eign venjulegs launafólks. Það er þeirri raunverulegi lífeyrissjóður þegar á reynir.

Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir rúmum 15 milljörðum kr. vegna hælisleitenda. Fyrir nokkrum árum voru þetta 500 millj. kr. Frumvarpinu, sem lagt var fram af þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra, í dag hv. þm. Jóni Gunnarssyni, er ekki ætlað að leysa þann vanda sem við eigum við að glíma í þessum málaflokki, svo langt í frá. Þetta mál mun enn þá hanga yfir okkur. Við erum enn þá að eyða rúmum 15 milljörðum í þennan málaflokk. Það var ekki tekið á gríðarlegum fjölda umsókna frá Venesúela, sem voru 1.300 á síðasta ári, og í ár, samkvæmt tölum frá Stjórnarráðinu sjálfu, eru umsóknir um hæli á Íslandi á hverja 100.000 íbúa 582. Í Svíþjóð eru þær 133, í Danmörku 76 á hverja 100.000 íbúa, í Noregi 85 og Finnlandi 87. Við erum með 582 og svo er verið að tala um að það eigi ekki að gera neitt í þessu máli. Þessi ríkisstjórn þorir ekki að taka á þessu máli, hefur ekki pólitískan kjark til þess, svo það liggi algerlega fyrir. Á næsta ári mun þetta sennilega vera enn þá meira en 15 milljarðar. Við erum eiginlega að reka heilar Vestmannaeyjar á hverju einasta ári, fæði, klæði og húsnæði fyrir umsækjendur og hælisleitendur, 4.000–5.000 manns.

Ég vil að lokum fjalla um nýútkomna skýrslu Hjálparstarfs kirkjunnar. Í skýrslunni kemur fram að umsækjendum um neyðaraðstoð Hjálparstarfsins á Íslandi hafi fjölgað um 12,1% og þegar komi að tekjum þeirra sem leituðu til Hjálparstarfsins á síðasta starfsári, 2022–2023, hafi flestir, eða 33,7%, haft framfærslu af örorkulífeyri, samanborið við 31,9% á starfsárinu 2021–2022.

Þetta er fólk sem hefur framfærslu af örorkulífeyri og það leitar til Hjálparstarfs kirkjunnar þar sem það getur ekki séð sér farborða. Það er aukning, það er aukning á hverju einasta ári. Þetta er afleiðingin af þessari kjaragliðnun og því að lífeyrir almannatrygginga hækki einungis um 4,9% í ár. Það verður aukning á næsta ári, spái ég, ég þori að veðja upp á það. Af hverju? Af því að það er ekki verið að fylgja launaþróun í landinu. Það er ekki verið að fara eftir því sem segir í 62. gr. almannatryggingalaga. Fleiri og fleiri öryrkjar þurfa að leita til hjálparsamtaka til að komast af. Fjárlagafrumvarp þetta svarar engu í þeirra neyð.